Handboltakonan Anna Úrsúla Guðmundsdóttir er skyndihjálparmaður ársins, en verðlaunin voru veitt í dag á 112 deginum. Úrsúla, ásamt liðsfélögum sínum í Val, bjargaði lífi manns sem hné niður í Valsheimilinu síðasta vor.
Skyndihjálparmaður Rauða krossins að þessu sinni er handboltakonan Anna Úrsúla Guðmundsdóttir. Var hún verðlaunuð fyrir skjót viðbrögð er Guðmundur Helgi Magnússon, hné niður í Valsheimilinu síðasta vor.
„Ég hef farið á skyndihjálparnámskeið, ég vinn hjá Eimskip og þau þar eru rosalega dugleg að halda þannig fyrir starfsfólkið,“ segir Anna Úrsúla í samtali við mbl.is. „Það hjálpaði svo sannarlega í þessum aðstæðum.
“Við athöfnina í dag sagði Sveinn Kristinsson, formaður Rauða krossins á Íslandi frá því hvernig Anna Úrsúla stökk upp til mannsins er hann hneig niður. Sagði hann að hún hafi klifrað yfir pallanna „sem voru eins og bjarg“.
– En hvað hugsaði Anna Úrsúla þegar hún sá manninn hníga niður?
„Ég hugsaði fyrst að hann hlyti að hafa bara dottið og meitt sig. En svo kom hann ekkert upp aftur nokkrum sekúndum síðan þannig ég skaust þarna upp til að sjá hvað var í gangi. Í raun og veru sá ég strax hvað ég gat gert til þess að láta honum líða betur. Það blæddi rosalega mikið úr höfðinu á honum og ég reyndi að skorða hann. Svo kallaði ég á stelpurnar því ég vissi að ég gæti ekki stundað lífgunartilraunir ein og við hjálpuðumst að.“
Anna Úrsúla segir að hópurinn hafi verið yfirvegaður og að það hafi hjálpað til. „Við vorum bara mjög rólegar og unnum kerfisbundið í því sem við vorum að gera.“
Aðspurð hvort að henni finnist mikilvægt að fólk fari á skyndihjálparnámskeið svarar Anna Úrsúla því játandi. „Já, ég tel að það sé mikilvægt. Það sannar sig í atvikum eins og þessu, við vorum nokkrar í hópnum sem höfðu farið. Mér finnst þetta mikilvægur grunnur.“
Anna Úrsúla hrósar einnig hjartastuðstæki sem var á svæðinu sem liðsfélagi hennar, Rebekka Rut Skúladóttir notaði á manninn.
„Þetta tæki er alveg ótrúlegt. Mér finnst að það ætti að vera sýnilegra í sundlaugum og íþróttahúsum því þetta er snilldartæki. Það gerði bara allt fyrir okkur.“
Physio Control hefur verið leiðandi í þróun, framleiðslu, sölu og þjónustu á hjartastuðtækjum og er meðal þeirra stærstu á því sviði í heiminum í dag. Vörulínan er breið, allt frá alsjálfvirkum hjartastuðtækjum til sérhæfðs og flókins tækjabúnaðar. Markmið Physio Control eru að framleiða tæki í hæsta gæðaflokki sem stuðlar að bestu möguleikum á björgun mannslífa.
Physio Control má m.a. finna í öllum sjúkrabílum, ýmsum sjúkrastofnunum og fyrirtækjum á íslandi.